Hef aldrei verið í neinum vafa

Toni Kroos.
Toni Kroos. AFP

„Ef það var einhver efi um framtíð mína þá er sá efi ekki lengur til staðar,“ segir þýski miðjumaðurinn Toni Kroos sem í morgun skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning við spænska stórliðið Real Madrid.

„Fyrir mánuði síðan las ég það í AS að ég vildi fara í burtu frá félaginu en það var aldrei raunin. Ég hef aldrei verið í neinum vafa,“ segir Kroos í viðtali við vefinn football-espana.net.

Kroos er nú samningsbundinn Real Madrid til ársins 2023 en hann kom til liðsins frá þýska liðinu Bayern München árið 2014. Manchester United hefur lengi haft augastað á þýska miðjumanninum en nú er ljóst að hann verður áfram í hvíta búningnum næstu árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert