Fráteknir miðar Tyrkja í almennri sölu

Alfreð Finnbogason skoraði síðast þegar Tyrkir heimsóttu Laugardalsvöllinn.
Alfreð Finnbogason skoraði síðast þegar Tyrkir heimsóttu Laugardalsvöllinn. mbl.is/Kjartan Þorbjörnsson

Knattspyrnusamband Íslands auglýsir nú miða til sölu sem upprunalega voru fráteknir fyrir stuðningsmenn tyrkneska landsliðsins sem mætir á Laugardalsvöllinn á þriðjudaginn í undankeppni EM.

Ekki liggur fyrir hvers vegna miðarnir eru nú í almennri sölu en þó er tekið fram á Facebook síðu KSÍ að þó miðarnir séu merktir gestunum verða kaupendur þeirra á meðal annarra stuðningsmanna Íslands. Líklegt er að Tyrkir hafi ekki selt alla þá miða sem þeim voru úthlutaðir.

Tyrkland er á toppi H-riðilsins með fullt hús stiga, níu talsins, en þar á eftir koma Frakkar og Íslendingar með sex stig. Fyrir 20 mánuðum síðan vann Ísland frækinn sigur á Tyrkjum í Eskishehir og nánast tryggði sér þar með sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins 2018. Þar áður tókst Ísland að leggja Tyrki að velli á Laugardalsvelli í október 2016, 2:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert