Þjálfari Nígeríu brjálaður

Thomas Dennerby var allt annað en sáttur eftir leik Frakka …
Thomas Dennerby var allt annað en sáttur eftir leik Frakka og Nígeríu í gær á HM kvenna. AFP

Thomas Dennerby, þjálfari nígeríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var brjálaður eftir 1:0-tap liðsins gegn Frakklandi í A-riðli heimsmeistaramóts kvenna í Rennes í gær. Wendie Renard skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 79. mínútu en notast var við VAR-myndbandsdómgæslu þegar vítspyrnan var dæmd.

Renard skaut í stöng úr fyrstu spyrnu sinni en dómari leiksins, Melissa Borjas, ákvað að endurtaka skyldi spyrnuna þar sem markmaður Nígeríu hafði fært annan fótinn af marklínunni. Dómurinn um að endurtaka spyrnuna hefur vakið hörð viðbrögð á meðal knattspyrnuáhugamanna og vilja margir meina að um sannkallaðan skandal sé að ræða hjá FIFA en VAR-myndbandsdómgæslan hefur leikið stórt hlutverk á HM kvenna til þessa. 

„Ef ég myndi segja það sem mig langar virkilega að segja yrði ég eflaust sendur heim,“ sagði þjálfari Nígeríu í samtali við fjölmiðla eftir leik. „Leikmenn mínir eru hetjur og við áttum ekki að tapa þessum leik. Frakkland er nægilega gott lið án þess að þær þurfi einhverja sérstaka hjálp til að vinna leiki. Við gerðum allt rétt í leiknum en svo er það allt eyðilagt af fólki sem við erum langt frá því að vera ánægð með,“ sagði þjálfarinn pirraður.

Þrátt fyrir tapið í gær á Nígería enn þá möguleika á því að fara áfram í sextán liða úrslit keppninnar sem eitt af liðum með bestan árangur í 3. sæti riðils síns en Nígería er með 3 stig í þriðja sæti riðilsins. Myndband af atvikinu umrædda í Rennes má sjá með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert