Búlgarar búnir að finna nýjan landsliðsþjálfara

Frá viðureign Búlgaríu og Englands á dögunum.
Frá viðureign Búlgaríu og Englands á dögunum. AFP

Búlgarar hafa ráðið nýjan þjálfara karlalandsliðsins í knattspyrnu í stað Krasimir Balakov sem sagði starfi sínu lausu í síðustu viku.

Nýi þjálfarinn er Georgi Dermendzhiev og er hann einn sigursælasti þjálfari Búlgaríu. Hann er 64 ára gamall og gerði Ludogorets að búlgörskum meisturum þrjú ár í röð frá 2015 til 2017 og undir hans stjórn komst liðið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu árið 2015. Frá Ludogorets fór hann til Ordabasy í Kasakstan og þaðan til Levski Sofia í Búlgaríu.

Mikill ófriður hefur verið í kringum búlgarska knattspyrnusambandið undanfarið en í kjölfarið á kynþáttarníði stuðningsmanna búlgarska landsliðsins í garð leikmanna enska landsliðsins á dögunum sagði forseti búlgarska knattspyrnusambandsins af sér sem og stjórn sambandsins og landsliðsþjálfarinn Balakov.

mbl.is