Við byrjuðum tímabilið of seint

Mauricio Pochettino á hliðarlínunni í kvöld.
Mauricio Pochettino á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, segir erfitt undirbúningstímabil vera eina meginástæðu þess að liðið hefur byrjað tímabilið illa. Tottenham er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og aðeins búið að vinna tvo af síðustu átta leikjum sínum í öllum keppnum.

Liðið gæti þó verið að snúa aftur á rétta braut ef marka má frammistöðu kvöldsins en Tottenham vann 5:0-stórsigur á Rauðu stjörnunni frá Serbíu í Meistaradeildinni í Lundúnum. Harry Kane og Heung-Min Son skoruðu hvor sín tvö mörkin og Érik Lamela skoraði eitt og segist Pochettino vongóður um að aukið sjálfstraust geti skilað betri frammistöðu í næstu leikjum.

„Við hófum undirbúninginn okkar of seint, við reyndum að nýta undirbúningstímabilið í að slípa okkur saman og koma okkur í stand en það hafði slæm áhrif að byrja þennan undirbúning svona seint,“ sagði Pochettino við BT Sport eftir leikinn en Tottenham spilað úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í byrjun júní og byrjaði því undirbúningstímabilið síðar en gengur og gerist.

„Það sem skiptir máli er að við höldum rónni og trúum á það sem við erum að gera. Svona sigur er frábær fyrir sjálfstraustið.“

mbl.is