Evrópumeistararnir að stinga af

Sherida Spitse skorar úr vítaspyrnu í kvöld.
Sherida Spitse skorar úr vítaspyrnu í kvöld. AFP

Evrópumeistarar Hollands eru með fullt hús stiga í A-riðli í undankeppni Evrópumóts kvenna í fótbolta eftir 4:1-sigur á Slóveníu á heimavelli í kvöld. 

Slóvenía komst óvænt yfir á 30. mínútu er Kaja Erzen skoraði en Sherida Spitse, leikmaður Vålerenga í Noregi, jafnaði úr víti á 34. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1. Spitse var aftur á ferðinni á 53. mínútu með annarri vítaspyrnu. 

Vivianne Miedema, leikmaður Arsenal, bætti við tveimur mörkum fyrir hollenska liðið og tryggði sannfærandi sigur. Holland er á toppi riðilsins með 18 stig, átta stigum meira en Slóvenía, og er komið langt með að tryggja sér farseðilinn á Evrópumótið. 

Ungverjaland vann sannfærandi 4:0-heimasigur á Lettlandi í F-riðli Íslands. Zsannet Jakabfi, Dora Zeller, Evelin Fenyvesi og Sára Pusztai skoruðu mörk Ungverja. Ungverska liðið er í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig en Lettland er á botninum án stiga. 

Ísland og Svíþjóð eru í tveimur efstu sætunum með níu stig hvort. Næsti leikur Íslands í riðlinum er í Ungverjalandi 10. apríl á næsta ári eða eftir 149 daga. 

mbl.is