Stórþjóðir fótboltans geta tapað á stóra sviðinu

Lið Alsír sem sigraði Vestur-Þýskaland 2:1 á HM 1982 á …
Lið Alsír sem sigraði Vestur-Þýskaland 2:1 á HM 1982 á Spáni

Saga heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu geymir alls kyns sögur þótt ekki sé hún mjög gömul í samanburði við Ólympíuleika eða Opna breska meistaramótið í golfi. Saga HM geymir sigra smáþjóða, sigra stórþjóða, hetjusögur, skúrkasögur, spennu, dramatík, stórsigra, markaskor með höndum, fótum og höfðinu svo eitthvað sé nefnt.

Til að byrja með var lokakeppni HM ekki sá heimsviðburður sem raunin er í dag. Englendingar tóku til dæmis ekki þátt í keppninni fyrstu skiptin. Töldu það ekki þjóna neinum tilgangi fyrir sig sem hefðu fundið upp „nútímaútgáfuna“ af íþróttinni. Mögulega hafa Englendingar talið að þeir væru bestir í heimi á þeim tíma en sá misskilningur hefur þá alla vega verið rækilega leiðréttur með árunum.

Eitt af því sem hefur hjálpað keppninni að dafna, og gert hana sjarmerandi, er sú staðreynd að stundum hafa þjóðir með litla knattspyrnuhefð komið á óvart í keppninni. Í Sögustund Morgunblaðsins að þessu sinni kíkjum við á tvö slík dæmi í tilefni þess að Ísland verður með í fyrsta skipti næsta sumar. (Greinin var fyrst birt árið 2018) 

Norður-Kórea 1966

Ekki myndi greinarhöfundur líkja Íslandi við Norður-Kóreu hvort sem um er að ræða íþróttir eða aðra anga þjóðlífsins. En landslið N-Kóreu komst óvænt í lokakeppni HM árið 1966 og var ekki búist við miklu af liðinu. Kunnátta Kóreubúanna á knattspyrnuvellinum hafði ekki verið tilefni margra fyrirsagna auk þess sem liðið fékk óvenju þægilega leið í lokakeppnina.

Alþjóðaknattspyrnusambandið ákvað að einungis eitt sæti í lokakeppninni yrði í boði fyrir þjóðir frá þremur heimsálfum: Afríku, Asíu og Eyjaálfu. Hleypti þessi ákvörðun illu blóði í forystufólk í knattspyrnunni í þessum heimsálfum og ákváðu allar þjóðir nema tvær að draga sig út úr undankeppninni. Einungis tvær stóðu eftir: Norður-Kórea og Ástralía. Þar tókst Kóreubúum að hafa betur.

Eftirmál Kóreustríðsins

Þá tóku við ýmis flækjustig vegna eftirmála Kóreustríðsins sem lauk 1953. Gestgjafarnir Englendingar höfðu tekið málstað Suður-Kóreu og um tíma var ekki ljóst hvort leikmönnum Norður-Kóreu yrði hleypt inn í landið til að taka þátt þar sem Bretar viðurkenndu ekki ríki Norður-Kóreu. Blessaðist það nú allt saman.

Riðillinn var ekki auðveldur. Sovétmenn sem urðu Evrópumeistarar sex árum áður og Ítalir sem urðu Evrópumeistarar tveimur árum síðar eða 1968 auk Síle. Ekki þótti lið N-Kóreu líklegra til afreka eftir 0:3 tap fyrir Sovétríkjunum í fyrsta leiknum. Athygli vakti hversu lágvaxnir leikmenn liðsins voru og fjölmiðlamenn veittu liðinu ekki mikla athygli fyrst um sinn.

Knattspyrnuáhugamenn í Middlesbrough, þar sem riðillinn var spilaður, hrifust þó mjög af Kóreubúunum í öðrum leiknum gegn Síle sem lauk 1:1. Pak Seung-Zin skoraði þá jöfnunarmarkið á 88. mínútu.

Leikmenn Norður-Kóreu fagna sigri gegn Ítalíu 1:0 í Middlesbrough á …
Leikmenn Norður-Kóreu fagna sigri gegn Ítalíu 1:0 í Middlesbrough á HM 1966.

Nýttu sér liðsmuninn

Ítalir höfðu unnið Síle en tapað fyrir Sovétríkjunum. Með sigri gat Norður-Kórea komist upp úr riðlinum. Lukkudísirnar voru á þeirra bandi því fyrirliði Ítala, Giacomo Bulgarelli, meiddist þegar hann tæklaði leikmann N-Kóreu og kom ekki meira við sögu. Á þeim tíma voru skiptingar ekki leyfðar í fótboltanum og Ítalir voru manni færri í liðlega klukkutíma. Kóreubúar nýttu sér það og Pak Doo-Ik skoraði eina mark leiksins rétt fyrir hlé og einhver óvæntustu úrslit í sögu HM litu dagsins ljós við mikinn fögnuð heimamanna í Middlesbrough.

Úrslitin áttu þó ekki algerlega sviðið í fjölmiðlunum því sama kvöld féllu ríkjandi heimsmeistarar frá Brasilíu úr keppni eftir tap fyrir Portúgal. Leik sem stundum er minnst fyrir það að Pele var þá „sparkaður út úr keppninni“ þegar hann var tæklaður tvívegis á nokkrum sekúndum.

Portúgalir með Eusebio innanborðs voru of stór biti fyrir hina baráttuglöðu leikmenn Norður-Kóreu að kyngja. En þeim tókst þó að skora þrívegis en töpuðu 5:3 fyrir Portúgal líkt og Íslendingar gerðu árið 2011. Raunar komst Norður-Kórea í 3:0 í fyrri hálfleik enda sjálfstraustið í botni eftir sigurinn á Ítölum. Það dugði skammt því Portúgalir komust í stuð en það var ekkert leyndarmál að leikmönnum Portúgals leiddist að verjast en sóttu af krafti í sínum leikjum.

Norður-Kóreubúar fengu góðan stuðning í leiknum enda fylgdu þeim 3 þúsund stuðningsmenn frá Middlesbrough til Liverpool þar sem leikurinn fór fram.

Alsír 1982

Ekki hafa mörg lið komið jafn skemmtilega á óvart í sögu HM og Alsír gerði á HM á Spáni árið 1982. Þegar þarna var komið sögu átti Afríka tvö sæti í lokakeppninni. Ásamt Alsír var lið Kamerún fulltrúi Afríku en Kamerúnar tefldu þá fram Roger Milla sem átta árum síðar átti eftir að vekja mun meiri athygli.

Alsír var í fjórða og neðsta styrkleikaflokki þegar dregið var í riðla í lokakeppnina. Ekki var því búist við neinni frægðarför Alsíringa, sérstaklega ekki þegar í ljós kom að í riðlinum voru einnig Vestur-Þýskaland, Síle og Austurríki. En margt fer öðruvísi en ætlað er í íþróttum.

Skelltu Vestur-Þjóðverjum

Sparkunnendur trúðu vart sínum eigin augum þegar Alsír skellti V-Þýskalandi 2:1 í fyrsta leiknum. Hér er ágætt að hafa í huga að V-Þýskaland fór alla leið í úrslitaleikinn í keppninni og var ríkjandi Evrópumeistari. Leikurinn fór fram í Gijon og skoruðu þeir Rabah Madjer og Lakhdar Belloumi mörk Alsír. Sjálfur Karl Heinz Rummenigge, fyrirliði Þjóðverja, skoraði mark þeirra. Þjóðverjar gerast nú orðið afar sjaldan sekir um byrjendamistök í íþróttasálfræði. Í þetta skiptið létu þeir hins vegar alls kyns yfirlætisleg ummæli falla fyrir viðureignina sem reyndist vitaskuld fínasta hvatning fyrir Afríkubúana.

Alsíringum tókst ekki að fylgja sigrinum eftir í næsta leik gegn Austurríki. Austurríkismenn höfðu betur 2:0 og Alsíringum var því kippt niður á jörðina. Þeir náðu sér þó aftur á strik og höfðu betur gegn Síle 3:2 í síðasta leik sínum. Salah Assad var í miklu stuði og skoraði tvívegis en Tedji Bensaoula skoraði einnig.

Árið 1982 var ekki búið að búa þannig um hnútana að leikirnir í síðustu umferð riðlakeppninnar í lokakeppninni færu fram á sama tíma. Alsír vann Síle 24. júní en daginn eftir mættust grannaþjóðirnar V-Þýskaland og Austurríki. Með tvo sigra af þremur voru Alsíringar í góðri stöðu til að ná öðru af tveimur efstu sætunum. Tvö lið fóru áfram úr hverjum riðli í milliriðla. 16-liða úrslitin komu til sögunnar fjórum árum síðar.

Hneykslið í Gijón

V-Þýskaland sigraði Austurríki 1:0 þar sem hetja Þjóðverja frá úrslitaleiknum á EM 1980, Horst Hrubesch, skoraði sigurmarkið strax á 10. mínútu. Voru liðin þrjú öll með fjögur stig. Þjóðverjar og Austurríkismenn fóru áfram á betri markatölu en spútnikliðið Alsír sat eftir.

Sársaukinn var mikill og áttu Alsíringar samúð flestra sparkunnenda sem ekki komu frá V-Þýskalandi eða Austurríki. Mikil reiði greip um sig vegna leiks Þjóðverja og Austurríkismanna þar sem leikmenn liðanna virtust svo sáttir við niðurstöðuna að lítið gerðist síðustu 80 mínúturnar. Áhorfendur á leiknum létu óánægju sína óspart í ljós og kölluðu „Alsír, Alsír, Alsír.“

Ekki er algengt að stakir knattspyrnuleikir fái gælunöfn en viðureign V-Þýskalands og Austurríkis árið 1982 er gjarnan kallaður á ensku: The disgrace of Gijón . Ævintýraleg framganga Alsír fékk því leiðinlegan endi en arfleifð þessa skemmtilega liðs er kannski sú að allar götur síðan eru leikir í lokaumferðinni látnir fara fram á sama tíma.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. janúar 2018

mbl.is