Barcelona rétt slapp með skrekkinn

Barcelona slapp með skrekkinn gegn Ibiza.
Barcelona slapp með skrekkinn gegn Ibiza. AFP

Barcelona rétt slapp með skrekkinn er liðið mætti C-deildar liði Ibiza á útivelli í spænska bikarnum í fótbolta í kvöld. Antoine Griezmann skoraði sigurmark Barcelona í uppbótartíma, 2:1. 

Pep Martin kom liði Ibiza frá sólareyjunni frægu í Miðjarðarhafi gríðarlega óvænt yfir á níundu mínútu og var staðan 1:0 í hálfleik. Antoine Griezmann jafnaði loks metin fyrir Barcelona á 72. mínútu, áður en hann skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartímans og þar við sat.

Ibiza er mikið uppgangslið í spænska fótboltanum og hefur farið upp um tvær deildir á skömmum tíma en liðið er nú í toppbaráttu í C-deildinni.

Barcelona hefur þar með tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum, en liðið lék til úrslita á síðustu leiktíð og tapaði þá fyrir Valencia. Barcelona hefur unnið bikarinn oftast allra eða 30 sinnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert