Frekar til Ástralíu en í ensku úrvalsdeildina

Ernesto Valverde.
Ernesto Valverde. AFP

Ernesto Valverde er enn að velta fyrir sér framtíðinni í fótboltanum eftir að honum var sagt upp störfum sem knattspyrnustjóra Barcelona um miðjan janúar.

Þessi 56 ára gamli Spánverji var um skeið við stjórnvölinn hjá Olympiacos í Grikklandi en hefur að öðru leyti starfað í heimalandi sínu allan ferilinn sem leikmaður og þjálfari. Lengst hjá Athletic Bilbao þar sem hann var leikmaður 1990 til 1996 og þjálfari 2003-2005 og aftur 2013-2017.

„Fólk spyr mig oft hvort ég fari ekki í ensku úrvalsdeildina og þá svara ég því til að mig langi frekar til Ástralíu. Ferillinn í fótboltanum verður ekki endalaus og stundum langar mann til að nýta tækifærið til að flytja til framandi landa. Sjáum til hvað ég geri, ég er ekki búinn að vera atvinnulaus svo lengi að ég sé farinn að taka einhverjar ákvarðanir. Ég er ekki með skýra sýn á þetta enn þá en málið er að mig langar til að gera eitthvað öðruvísi svo það kemur vel til greina að flytja eitthvað,“ sagði Valverde við goal.com.

mbl.is