Neituðu að taka á sig launalækkun

Lionel Messi og Gerard Pique eru í viðræðum við forráðamenn …
Lionel Messi og Gerard Pique eru í viðræðum við forráðamenn Barcelona fyrir hönd leikmannahópsins. AFP

Leikmenn spænska knattspyrnuliðsins Barcelona neituðu að taka á sig launalækkun á dögunum en það eru fjölmiðlar á Spáni sem greina frá þessu. Spánarmeistararnir eru í fjárhagsvandræðum þessa dagana vegna kórónuveirufaraldsins sem nú herjar á heimsbyggðina en öllum leikjum á Spáni hefur verið frestað fram í apríl í fyrsta lagi.

Barcelona fær því engar tekjur af miðasölu eða af seldum veigum á leikjum liðsins en Nývangur, heimavöllur félagsins, tekur tæplega 100.000 manns í sæti. Þá er íþróttasafn félagsins lokað vegna útgöngubannsins sem gildir á Spáni og tekjur félagsins þessa dagana eru því af afar skornum skammti.

Fyrirliðar liðsins, þeir Lionel Messi, Sergio Busquets, Gerard Pique og Sergi Roberto ræða nú við forráðamenn félagsins um launalækkun á öllum leikmannahópnum en þeir hafa nú þegar hafnað tveimur tilboðum félagsins. Fjölmiðlar á Spáni eru hins vegar sannfærðir um að samkomulag náist en launakostnaður karlaliðs félagsins er í kringum 500 milljónir evra á ári.

mbl.is