Zlatan byrjaður að æfa með Hammarby

Zlatan Ibrahimovic spilaði með AC Milan á Ítalíu þar til …
Zlatan Ibrahimovic spilaði með AC Milan á Ítalíu þar til kórónuveirufaraldurinn skall á. AFP

Svíinn geðþekki Zlatan Ibrahimovic er byrjaður að æfa með sænska úr­vals­deild­ar­fé­lag­inu Hamm­ar­by en hann á sjálfur fjórðungshlut í félaginu.

Zlatan er einn þekktasti knattspyrnumaður heims en hann yfirgaf AC Milan í Ítalíu á dögunum eftir að hafa samið við félagið í byrjun árs. Ástandið á Ítalíu er slæmt vegna kórónuveirunnar og var öllum íþróttaviðburðum í land­inu af­lýst en Serie A, efstu deildinni­ í knatt­spyrnu, hef­ur verið frestað ótímabundið.

Hann hefur verið heima með fjölskyldu sinni í Stokkhólmi síðan en undanfarna viku hafa nokkrir leikmenn byrjað að æfa og hefur Svíinn geðþekki tekið þátt í því.

Zlatan er uppalinn í Malmö og var í guðatölu meðal stuðningsmanna liðsins lengi. Stytta af kappanum var vígð við mikinn fögnuð þegar allt lék í lyndi en hann keypti hluta í Hammarby frá Stokkhólmi í nóvember á síðasta ári. Sú ákvörðun vakti mikla reiði stuðnings­manna upp­eld­is­fé­lags­ins sem ít­rekað frömdu skemmd­ar­verk á stytt­unni þangað til að hún var endanlega fjarlægð í janúar.

Hamm­ar­by hef­ur einu sinni orðið sænsk­ur meist­ari, árið 2001. Liðið vann sænsku 1. deild­ina árið 2014. Liðið endaði í 3. sæti úr­vals­deild­ar­inn­ar í ár, aðeins einu stigi á eft­ir meist­ur­um Djurgår­d­en.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert