Segir toppslaginn ekki ráða neinum úrslitum

Robert Lewandowski og Erling Braut Haaland mætast á morgun en …
Robert Lewandowski og Erling Braut Haaland mætast á morgun en þar eru á ferð mesti markaskorari deildarinnar um árabil og sá nýliði sem hefur vakið mesta athygli. AFP

Bayern München gæti farið langt með að tryggja sér þýska meistaratitilinn í knattspyrnu á morgun þegar liðið sækir Borussia Dortmund heim í uppgjöri toppliða 1. deildarinnar.

Þegar sjö umferðum er ólokið er Bayern með fjögurra stiga forskot á Dortmund og með sigri Bæjara myndu sjö stig skilja liðin að. Dortmund myndi hins vegar hleypa gríðarlegri spennu í baráttuna með sigri.

Hansi Flick, knattspyrnustjóri Bayern, reynir hins vegar að tóna niður vægi leiksins sem úrslitaleiks. „Sama hvernig hann endar ræður hann engum úrslitum,“ sagði Flick í dag en lið hans freistar þess að vinna meistaratitilinn áttunda árið í röð. Það yrði hins vegar fyrsti titillinn hjá Flick sem tók við stjórn liðsins í nóvember.

Hjá Dortmund bíða menn með öndina í hálsinum eftir fréttum af því hvort miðvörðurinn öflugi Mats Hummels verði með en hann fór meiddur af velli í hálfleik á laugardaginn þegar Dortmund vann Wolfsburg á útivelli, 2:0.

Lið Dortmund er jafnan gríðarlega erfitt heim að sækja en þar hefur „guli veggurinn“ sín áhrif. Stuðningsmenn liðsins sem bera það nafn þykja engu líkir en nú sitja þeir heima og fylgjast með leiknum í sjónvarpi og því spurning hvort tómur heimavöllur sé Dortmund jafn drjúgur og þegar hann er þétt setinn.

mbl.is