Fá bætur ef Icardi er seldur til erkifjendanna

Mauro Icardi verður leikmaður PSG til ársins 2024 hið minnsta.
Mauro Icardi verður leikmaður PSG til ársins 2024 hið minnsta. AFP

Frakklandsmeistarar PSG hafa gengið frá kaupum á sóknarmanninum Mauro Icardi frá Inter en félagið staðfesti þetta á heimasíðu sinni í dag. Kaupverðið er talið vera um 57 milljónir evra en Argentínumaðurinn hefur skrifað undir fjögurra ára samning við félagið.

Icar­di var á láni hjá PSG á ný­af­staðinni leiktíð en hann er 27 ára gam­all fram­herji og skoraði 12 mörk í 20 leikjum fyrir liðið áður en tímabilið var flautað af vegna kórónuveirunnar. Hann var í sex ár þar á undan á mála hjá ítalska liðinu Inter sem hefur engan áhuga á að sjá á eftir leikmanninum til erkifjendanna í Juventus.

Orðrómar hafa verið á kreiki um að Juventus hafi einnig haft áhuga á að kaupa leikmanninn og segja heimildir Goal að forráðamenn Inter hafi sett klásúlu í kaupsamninginn við PSG til að sporna við því að Argentínumaðurinn endi hjá ítölsku meisturunum. Fari svo að PSG selji Icardi til Juventus munu Frakkarnir þurfa að borga Inter 15 milljónir evra. 

mbl.is