Eftirminnilegu tímabili Andra lokið

Andri Fannar Baldursson átti eftirminnilegt tímabil.
Andri Fannar Baldursson átti eftirminnilegt tímabil. Ljósmynd/Bologna

Bologna og Torino skildu jöfn, 1:1, í lokaumferð ítölsku A-deildarinnar í fótbolta í kvöld. Hinn 18 ára gamli Andri Fannar Baldursson kom inn á sem varamaður hjá Bologna á 72. mínútu. 

Tímabilið hefur verið eftirminnilegt hjá Andra, en hann lék sinn fyrsta leik með Bologna í febrúar og kom alls sjö sinnum inn á í deildinni á lokasprettinum. Lék hann samtals 136 mínútur plús uppbótartíma.  

Andri kom til Bologna frá Breiðabliki fyrir tveimur árum, en hann lék aðeins tíu mínútur í efstu deild hér heima áður en hann hélt til Ítalíu. Úrslitin í kvöld þýða að Bologna hafnar í 12. sæti með 47 stig. 

Lecce tapaði á heimavelli fyrir Parma, 3:4, og féll fyrir vikið. Fyrir umferðina var ljóst að SPAL og Brescia myndu sömuleiðis falla, en Birkir Bjarnason leikur með Brescia. 

mbl.is