Einn sá besti leggur hanskana á hilluna

Iker Casillas hefur leikið sinn síðasta leik.
Iker Casillas hefur leikið sinn síðasta leik. AFP

Spænski knattspyrnumarkvörðurinn Iker Casillas hefur lagt hanskana á hilluna eftir magnaðan 22 ára feril. 

Casillas lék yfir 500 deildarleiki með Real Madrid á árunum 1999-2015 og þótt einn besti markvörður heims um langt skeið. Lauk hann ferlinum með Porto í Portúgal. Casillas lék 167 landsleiki með Spánverjum og varð heimsmeistari 2010 og Evrópumeistari 2008 og 2012. 

Þá varð Casillas spænskur meistari fimm sinnum með Real Madrid og í tvígang portúgalskur meistari með Porto. Þá vann hann Meistaradeild Evrópu þrisvar með Real. 

Casillas lék ekkert á nýliðinni leiktíð þar sem hann fékk hjartaáfall snemma á síðasta ári, en hann æfði með Porto eftir að hann jafnaði sig. 

mbl.is