Skagamaðurinn aftur til Noregs

Björn Bergmann Sigurðarson er orðinn leikmaður Lillestrøm.
Björn Bergmann Sigurðarson er orðinn leikmaður Lillestrøm. Ljósmynd/CSKA Moskva

Skagamaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson hefur gert samning við norska knattspyrnufélagið Lillestrøm, en liðið leikur í B-deildinni þar í landi.

Björn kemur til Lillestrøm frá Rostov í Rússlandi eftir lánsdvöl hjá APOEL í Kýpur. Gildir samningur Björns út tímabilið. Björn þekkir vel til hjá Lillestrøm en hann lék með liðinu frá 2009 til 2012 áður en hann hélt til Wolves á Englandi. 

„Það voru mörg félög sem höfðu samband en ég var búinn að ákveða hvað ég vildi. Það skiptir ekki máli hvort það sé úrvalsdeildin eða B-deildin. Lilleström er það sem skiptir máli fyrir mig. Hér vil ég vera,“ sagði Björn við undirskriftina. 

Hjá Lillestrøm hittir Björn fyrir annan Skagamann en Arnór Smárason leikur með liðinu. Er Lillestrøm í níunda sæti norsku B-deildarinnar með ellefu stig eftir átta leiki en liðið féll úr úrvalsdeildinni á síðasta ári eftir áratuga dvöl þar.

mbl.is