United fylgist með undrabarninu frá Akranesi

Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með U21-árs landsliði Íslands á …
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með U21-árs landsliði Íslands á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísak Bergmann Jóhannesson, leikmaður Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni, hefur vakið athygli stærstu liða Evrópu fyrir framgöngu sína með sænska liðinu á tímabilinu.

Miðjumaðurinn öflugi er einungis 17 ára gamall en hann hefur skorað þrjú mörk og lagt upp önnur sjö til viðbótar á tímabilinu til þessa.

Bæði Juventus og Manchester United hafa nú þegar sent njósnara sína til þess að fylgjast með leikmanninum en það er sænska dagblaðið Norrköpings Tidningar sem greinir frá þessu.

Liggur ekki á að selja hann

„Við vitum af því að það hafa mörg félög fylgst með honum á keppnistímabilinu og sum þeirra eru á meðal þeirra stærstu í Evrópu,“ segir Peter Hunt, stjórnarformaður félagsins í samtali við blaðið.

„Okkur liggur ekki á að selja hann. Hann er samningsbundinn Norrköping til næstu þriggja ára og honum liður mjög vel hérna.

Það kemur hins vegar að því að við munum selja hann en í dag er best fyrir hann að spila fyrir Norrköping þar sem hann æfir með aðalliðinu í stað þess að fara í stærra lið þar sem hann æfir með U18 ára liðunum og varaliðinu,“ bætir hann við.

mbl.is