„Það síðasta sem við þurftum á að halda“

Jürgen Klopp á hliðarlínunni í kvöld.
Jürgen Klopp á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Liverpool vann Midtjylland 2:0 í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool, kvaðst sáttur við sigurinn en hann væri afar svekktur með að missa Fabinho í meiðsli.

„Þetta var erfitt kvöld. Þetta er svolítið eins og í hjónabandi, það eru góðir tímar og slæmir tímar. Það eru ekki slæmir tímar núna en það eru erfiðir tímar. Við verðum að standa saman og berjast enn meira. Það er það sem strákarnir gerðu í kvöld,“ sagði Klopp í samtali við BT Sport eftir leikinn.

Fabinho hefur verið að spila sem miðvörður í undanförnum leikjum eftir að Virgil van Dijk meiddist til langs tíma í leik gegn Everton, auk þess sem Joel Matip meiddist smávægilega í sama leik. „Við misstum Fabinho út af í fyrri hálfleik. Rhys Williams er aðeins 19 ára og ég held að hann sé búinn að spila fleiri leiki í Meistaradeildinni en í úrvalsdeildinni, það er sjaldgæft. Við erum að standa okkur mjög vel en þetta er högg fyrir liðið því nú verðum að glíma við þessi meiðsli,“ sagði Klopp.

„Þetta er það síðasta sem við þurftum á að halda. Fabinho fann til aftan í lærinu þannig að það er ekki gott. Hann sagðist ekki finna mjög mikið til og að hann hefði getað spilað áfram. Hann gat þó ekki tekið spretti þannig að það hjálpar ekki. Við sjáum hvað setur, við verðum að koma honum í myndatöku og sjá hvað kemur út úr því en augljóslega er þetta ekki gott,“ hélt hann áfram.

Klopp sagði þó að Jordan Henderson, fyrirliði liðsins, væri ekki meiddur þrátt fyrir að hann hefði verið tekinn út af í hálfleik. „Við urðum að taka Henderson út af í hálfleik. Hann sagðist vera í lagi en á þessum augnablikum verður maður að axla ábyrgð og planið fyrir leik var að láta hann spila um 45 mínútur svo hann yrði í lagi fyrir næsta leik gegn West Ham. Þetta var erfiður leikur að spila, en að vinna 2:0 er í fínu lagi þannig að við höldum bara áfram,“ sagði Klopp að lokum.

mbl.is