Rúnar gæti fengið tækifæri í Noregi

Rúnar Alex Rúnarsson var í byrjunarliði Arsenal gegn Dundalk í …
Rúnar Alex Rúnarsson var í byrjunarliði Arsenal gegn Dundalk í Evrópudeildinni í lok október. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, er í leikmannahóp enska félagsins sem mætir Molde í Evrópudeildinni í Noregi á morgun.

Arsenal er í þægilegri stöðu í B-riðli keppninnar en liðið er með fullt hús stiga eða 9 stig eftir fyrstu þrjá leiki sína í riðlakeppninni. Molde kemur þar á eftir með 6 stig, Rapid Vín er í þriðja sætinu með 3 stig og Dundalk er án stiga í neðsta sætinu.

Mikel Arteta tók með sér ungan leikmannahóp til Noregs og hafa enskir fjölmiðlar ýjað að því að Rúnar Alex, ásamt öðrum ungum leikmönnum, fái tækifæri í byrjunarliðinu á morgun.

Rúnar Alex gekk til liðs við Arsenal frá Dijon í sumar en enska félagið borgaði 1,5 milljónir punda fyrir íslenska markvörðinn.

Hann hefur aðeins byrjað einn leik fyrir Arsenal síðan hann kom en það var í Evrópudeildinni gegn Dundalk í lok október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert