Tvær íslenskar vonarstjörnur danska stórliðsins

Orri Hrafn Óskarsson er að gera afar góða hluti með …
Orri Hrafn Óskarsson er að gera afar góða hluti með FCK. Ljósmynd/FCK

FC København, sigursælasta lið danska fótboltans, hefur ekki átt sjö daga sæla og situr í áttunda sæti dönsku deildarinnar með aðeins 13 stig eftir 10 leiki. Danska dagblaðið Ekstra Bladet fjallar um Kaupmannahafnarliðið í dag og fjallar sérstaklega um unga leikmenn sem geta komið því til bjargar í framtíðinni, en þar á lista eru tveir Íslendingar; Orri Hrafn Óskarsson og Hákon Arnar Haraldsson.

Orri Hrafn Óskarsson hefur slegið í gegn með unglingaliðum félagins síðustu mánuði en hann er uppalinn hjá Gróttu og lék sinn fyrsta leik í 2. deildinni þegar hann var 13 ára og skoraði tvö mörk gegn Hugin. Hann hefur skorað 9 mörk í 13 leikjum með yngri landsliðum Íslands. Orri er sonur Óskar Hrafns Óskarssonar fyrrverandi þjálfara hans hjá Gróttu og núverandi þjálfara Breiðabliks.

Hákon kom til danska liðsins frá ÍA á síðasta ári og hefur leikið með U19 ára liðinu. Hann lék ekki með meistaraflokki ÍA áður en hann hélt til Kaupmannahafnar en á að baki 22 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann er yngri bróðir Tryggva Hrafns Haraldssonar leikmanns Lillestrøm í Noregi.

Umfjöllun Ekstra Bladet um Orra Hrafn:

Orri er markahæstur í U17 ára deildinni með 15 mörk, en aðeins Oliver Ross og Roony Bardghij eru búnir að skora eins mikið og 16 ára Íslendingurinn.

Hann lék sinn fyrsta leik með Gróttu heima á eldfjallaeyjunni þegar hann var 13 ára og hefur síðan leikið með FCK en hann heimsótti félagið nokkrum sinnum áður en hann samdi loksins við það.

Hann er hávaxinn og á sama tíma snöggur og góður að klára færin. Hann skoraði þrennu í 8:1-sigri FCK á Midtjylland og skoraði tvö mörk í fyrsta U19 ára leiknum á dögunum.

Umfjöllun Ekstra Bladet um Hákon Arnar:

FCK samdi við Íslendinginn Hákon Arnar Haraldsson sumarið 2019 frá Akranesi. Hann er bestur á hægri kantinum en færir sig oft á miðjan völlinn og lætur til sín taka. Hann er ekki sá líkamlega sterkasti en hann er með góða tækni.

Hann vinnur vel á litlum svæðum og kemur með mörk inn á milli sömuleiðis.

Hákon Arnar Haraldsson samdi við FC Kaupmannahöfn á síðasta ári.
Hákon Arnar Haraldsson samdi við FC Kaupmannahöfn á síðasta ári. Ljósmynd/FCK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert