Messi daðrar við Bandaríkjamenn

Léttara hefur verið yfir Lionel Messi að undanförnu og Barcelona …
Léttara hefur verið yfir Lionel Messi að undanförnu og Barcelona hefur sótt í sig veðrið í deildinni. AFP

Argentínumaðurinn Lionel Messi segist hafa áhuga á að búa í Bandaríkjunum en segist ekki hafa tekið ákvörðun um hvað tekur við hjá honum næsta sumar þegar samningur hans við Barcelona rennur út að óbreyttu.

Messi veitti La Sexta viðtal og þar fer hann ekki leynt með væntumþykju sína í garð félagsins FC Barcelona en gefur enga sérstaka vísbendingu um að hann verði áfram hjá félaginu. Segir þó að hann vilji starfa hjá félaginu eftir að leikmannsferlinum lýkur og miðla þar af þekkingu sinni.

Messi daðrar við Bandaríkjamenn í viðtalinu. „Ég hef alltaf sagt að ég myndi vilja upplifa að búa í Bandaríkjunum. En ég veit ekki hvort það verði að veruleika eða ekki.“

Um stöðuna eins og hún er núna hjá Barcelona-liðinu segir Messi að Ronald Koeman standi sig afar vel sem knattspyrnustjóri og hafi náð miklum árangri þótt ekki sé auðvelt að vera með marga nýja og yngri leikmenn í hópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert