Sex marka sigur í fyrsta leik Svövu

Svava Rós Guðmundsdóttir kemur inn á fyrir Bordeaux í leiknum …
Svava Rós Guðmundsdóttir kemur inn á fyrir Bordeaux í leiknum í dag. Ljósmynd/FCGB Féminines

Svava Rós Guðmundsdóttir og stöllur í Bordeaux unnu 7:1-stórsigur á Reims í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu í dag. Hitt Íslendingalið deildarinnar, Le Havre, varð að sætta sig við jafntefli í fallbaráttuslag.

Bordeaux er í 3. sæti deildarinnar með 26 stig eftir stórsigurinn í dag, en þó eru tíu stig í topplið Lyon að loknum 13 umferðum. Svava Rós kom inn sem varamaður á 62. mínútu í stöðunni 5:1 og áttu heimakonur þá eftir að bæta við tveimur mörkum. Þetta var fyrsti leikur Svövu fyrir liðið en hún kom til Frakklands fyrr í mánuðinum. Sókn­ar­kon­an, sem er 25 ára göm­ul, kom til franska fé­lags­ins frá Kristianstad í Svíþjóð þar sem hún hef­ur lék frá 2019 en samn­ing­ur henn­ar í Svíþjóð rann út um ára­mót­in.

Þá voru Íslendingarnir þrír í Le Havre allir í byrjunarliðinu sem gerði markalaust jafntefli gegn Issy. Um er að ræða þær Berglindi Björg Þorvaldsdóttur, Önnu Björk Kristjánsdóttur og Andreu Rán Snæfeld Hauksdóttur en Andrea gekk til liðs við Le Havre fyrir viku og var að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið.

Berglind skoraði að vísu í lok uppbótartímans í fyrri hálfleik og hefði það getað reynst dýrmætt sigurmark en hún var í rangstöðu að mati dómara leiksins og fékk markið því ekki að standa. Le Havre er á botni frönsku deildarinnar með fimm stig eftir 12 leiki en Issy er í 10. sæti með sjö stig.

mbl.is