Sjálfvirkar rangstöðuákvarðanir á HM?

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Arsene Wenger segir að FIFA verði reiðubúið að innleiða sjálfvirkt kerfi fyrir rangstöðuákvarðanir á HM 2022 í knattspyrnu í Katar á næsta ári.

„Ég tel að sjálfvirka rangstaðan verði tilbúin árið 2022. Ég er að þrýsta ákaft á það gangi í gegn, sem myndi þýða að aðstoðardómarinn yrði látinn vita um leið með merki,“ sagði Wenger, sem er yfirmaður þróunar knattspyrnunnar hjá FIFA, í samtali við The Times.

Alþjóðanefnd knattspyrnusambanda, IFAB, tilkynnti í síðasta mánuði að verið væri að skoða rangstöðuregluna og að nefndin hefði í hyggju að prófa tækni sem leiðir til hálfsjálfvirkra ákvarðana, sem er ætlað að minnka tímann sem fer í að bíða eftir VAR-ákvörðun.

Wenger er hins vegar á því að þörf sé á alveg sjálfvirkri tækni þar sem hálfsjálfvirk tækni myndi ekki minnka tímann nægilega mikið. „Að meðaltali þurfum við að bíða í 70 sekúndur, stundum 80 sekúndur, eftir ákvörðun. Það er svo mikilvægt að þetta fari í gegn því við erum að sjá svo mikið af fagnaðarlátum sem eru síðan ekki til neins eftir að mörk eru dæmd af vegna tæpra rangstaðna.

Í síðasta mánuði sagði Marco van Basten, fyrrverandi framherji AC Milan, Ajax og hollenska landsliðsins, að kominn væri tími til þess að íhuga að leggja rangstöðuregluna alfarið niður, þar sem knattspyrnan myndi verða betri fyrir vikið.

mbl.is