Keppnin sem allir vilja vinna

Leikmenn City fagna sigurmarkinu í kvöld. Gundogan er lengst til …
Leikmenn City fagna sigurmarkinu í kvöld. Gundogan er lengst til hægri. AFP

Ilkay Gundogan, leikmaður Manchester City, segir að hægt sé að ná árangri í Meistaradeildinni ef leikmenn eru hæfileikaríkir og með rétta viðhorfið. 

„Við þekkjum hversu erfið þessi keppni er. Hver einasti andstæðingur er svo erfiður vegna þess að öll liðin eru góð. Dortmund er gott lið og getur unnið hvaða lið sem er. Við þurftum að halda rimmunni í jafnvægi og á þessu stigi keppninnar verða menn að sýna rétta skapgerð. Við sýndum að við vorum tilbúnir að berjast um sæti í undanúrslitum,“ sagði þýski landsliðsmaðurinn Ilkay Gundogan við fjölmiðlamenn að leiknum loknum í kvöld.

„Enginn vill falla úr keppni í Meistaradeildinni og ég er viss um að leikmenn Dortmund segja það sama ef þú spyrð þá. Allir vilja ná langt í þessari keppni og þess vegna er hún erfiðari en aðrar. Allir vilja vinna í þessari keppni en ef lið eru með sterkan leikmannahóp og leikmenn með rétta viðhorfið þá eru góðar líkur á því að ná árangri.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert