Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar færður til Porto

Manchester City og Chelsea munu nú mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar …
Manchester City og Chelsea munu nú mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Portúgal í stað Tyrklands. AFP

UEFA, evrópska knattspyrnusambandið, hefur tekið ákvörðun um að færa úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í karlaflokki til Porto í Portúgal.

Leikið verður á Drekavellinum svokallaða, heimavelli Porto, hinn 29. maí næstkomandi þar sem ensku félögin Chelsea og Manchester City mætast.

Leikurinn átti upphaflega að fara fram á Atatürk-vellinum í Istanbúl í Tyrklandi en þar sem Tyrkland er komið á rauðan lista hjá enskum stjórnvöldum vegna aukins fjölda kórónuveirusmita hóf UEFA í samráði við stuðningsmannasamtök Chelsea og Man City að reyna að finna betri lausn.

Þar sem Tyrkland er á rauðum lista hefðu áhangendur ensku liðanna ekki mátt ferðast þangað. Portúgal er hins vegar á grænum lista enskra stjórnvalda og geta því stuðningsmenn beggja liða ferðast til Porto.

Búist er við því að hvort lið fái 6.000 miða á leikinn og verða því samtals 12.000 stuðningsmenn á Drekavellinum, sem rúmar 50.000 áhorfendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert