Brynjólfur lagði upp þegar Kristiansund fór á toppinn

Brynjólfur Andersen Willumsson í leik með Kristiansund á tímabilinu.
Brynjólfur Andersen Willumsson í leik með Kristiansund á tímabilinu. Ljósmynd/Jon Forberg

Brynjólfur Andersen Willumsson kom inn á sem varamaður hjá Kristiansund og lagði upp annað mark liðsins í 2:0 sigri gegn Odds Ballklubb í norsku úrvalsdeildinni í dag. Með sigrinum fór liðið á topp deildarinnar.

Kristiansund komst yfir eftir rúmlega klukkutíma leik þegar Sander Erik Kartum skoraði.

Á 73. mínútu kom Brynjólfur inn á sem varamaður og á fyrstu mínútu uppbótartíma lagði hann upp markið sem gulltryggði sigurinn, en það skoraði Agon Mucolli.

Sem áður segir fer Kristiansund á topp norsku úrvalsdeildarinnar með sigrinum, þar sem liðið er með 15 stig eftir sjö umferðir.

Ríkjandi meistarar Bodø/Glimt, sem Alfons Sampsted leikur með, eiga þó leik til góða og geta náð toppsætinu að nýju með sigri gegn Mjøndalen á morgun.

Viðar Ari Jónsson spilaði þá fyrstu 74 mínúturnar fyrir Sandefjord þegar liðið tapaði 1:3 fyrir Molde á heimavelli í deildinni í dag. Björn Bergmann Sigurðarsons lék ekki með Molde í dag vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert