Biðst afsökunar á framkomunni: Ég er ekki rasisti

Marko Arnautovic öskrar í átt að Ezgjan Alioski (8) eftir …
Marko Arnautovic öskrar í átt að Ezgjan Alioski (8) eftir að hafa skorað þriðja mark Austurríkis. AFP

Austurríski knattspyrnumaðurinn Marko Arnautovic hefur beðist afsökunar á framkomu sinni eftir að hann gulltryggði sigur Austurríkismanna á Norður-Makedóníu, 3:1, í lokakeppni EM í Búkarest í gær.

Arnautovic skoraði þriðja mark Austurríkis á 89. mínútu, eftir að hafa komið inn á sem varamaður, en hann virtist hreinlega reiður í kjölfarið og öskraði m.a. í átt að Ezgjan Alioski, vinstri bakverði Norður-Makedóníu. David Alaba, fyrirliði Austurríkismanna, sagði greinilega einhver vel valin orð við Arnautovic í kjölfarið.

Margir hafa gagnrýnt Arnautovic fyrir framkomuna og hann hefur víða verið sakaður um rasisma í garð þjóða á Balkanskaganum en sjálfur á hann serbneskan föður.

„Það áttu sér stað nokkur heit orðaskipti í tilfinningaþrungnum leik. Ég vil biðjast afsökunar, sérstaklega vini mína frá Norður-Makedóníu og Albaníu. Ég vil að eitt sé á hreinu, ég er ekki rasisti. Ég á vini nánast í hverju landi og styð fjölbreytileikann. Allir sem þekkja mig vita það,“ skrifaði Arnautovic á Instagram í dag.

mbl.is