Messi á skotskónum gegn City – Óvænt tap Real

Lionel Messi fagnar marki sínu í kvöld.
Lionel Messi fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Lionel Messi skoraði sitt fyrsta mark fyrir París SG er liðið vann 2:0-heimasigur á Manchester City í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. Markið er það fyrsta sem Messi skorar fyrir annað félagslið en Barcelona.

Idrissa Gueye kom PSG yfir á 8. mínútu og Messi bætti við öðru markinu á 74. mínútu eftir undirbúning hjá Kylian Mbappé og þar við sat. PSG er með fjögur stig eftir tvo leiki en Manchester City þrjú.

Í sama riðli vann Club Brugge 2:1-útisigur á Leipzig. Club Brugge er með fjögur stig en Leipzig er án stiga.

Nýliðar Sheriff frá Moldóvu gerðu sér lítið fyrir og unnu Real Madrid á útivelli, 2:1. Jasurbek Yakhshiboev kom Sheriff yfir á 25. mínútu en Karim Benzema jafnaði úr víti á 65. mínútu. Sheriff átti hinsvegar lokaorðið því Sebastien Thill skoraði sigurmarkið á 89. mínútu.

Sheriff er á toppi riðilsins með sex stig, þremur stigum meira en Real. Inter og Shakhtar, sem gerðu markalaust jafntefli fyrr í dag, eru með eitt stig hvort.

Í C-riðli eru Ajax og Dortmund með sex stig hvort en Sporting og Besiktas án stiga. Hollendingurinn Donyell Malen skoraði sigurmark Dortmund í 1:0-sigri á Sporting á heimavelli.

Ajax vann 2:0-heimasigur á Besiktas fyrr í dag þar sem Steven Berghuis og Sébastien Haller skoruðu.   

Leikmenn Sheriff fögnuðu sigurmarkinu vel og innilega.
Leikmenn Sheriff fögnuðu sigurmarkinu vel og innilega. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert