Messi hetjan í sigri PSG

Lionel Messi fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Lionel Messi fagnar sigurmarki sínu í kvöld. AFP

Lionel Messi reyndist hetja Parísar Saint-Germain þegar liðið hafði nauman sigur gegn RB Leipzig í 3. umferð A-riðils Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.

Leikurinn var hin besta skemmtun og kom Kylian Mbappé heimamönnum í París yfir strax á níundu mínútu.

André Silva jafnaði metin fyrir Leipzig eftir tæplega hálftíma leik og var staðan 1:1 í hálfleik.

Gestirnir frá Þýskalandi komust nokkuð óvænt yfir eftir tæplega klukkutíma leik þegar Nordi Mukiele skoraði áður en Messi tók til sinna ráða tíu mínútum síðar, á 67. mínútu.

Hann jafnaði þá metin og kom liðinu svo yfir með marki úr vítaspyrnu sem var dæmd fyrir litlar sakir eftir að Mbappé féll við í vítateignum.

Mbappé klúðraði svo sjálfur vítaspyrnu í uppbótartíma en það kom ekki að sök og 3:2 sigur PSG staðreynd.

PSG fer með sigrinum upp í efsta sæti A-riðilsins á ný á meðan Leipzig er enn án stiga.

Í B-riðlinum er AC Milan sömuleiðis enn án stiga eftir 0:1 tap gegn Porto í Portúgal í kvöld.

Sigurmark Porto skoraði Kólumbíumaðurinn Luis Díaz á 65. mínútu.

Ajax gjörsigraði þá Borussia Dortmund í C-riðlinum. Marco Reus varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 11. mínútu og Daley Blind tvöfaldaði forystuna á 25. mínútu.

Staðan var 2:0 í hálfleik og eftir tæplega klukkutíma leik skoraði Brasilíumaðurinn Antony þriðja markið. Sebastien Haller rak svo smiðshöggið á 72. mínútu og frábær 4:0 sigur niðurstaðan.

Ajax er í efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga og Dortmund kemur í humátt á eftir í öðru sætinu.

Í D-riðlinum fóru svo fram tveir leikir. Þar tapaði moldavíska liðið Sheriff Tiraspol sínum fyrsta leik og fyrstu stigum þegar það laut í lægra haldi gegn Internazionale frá Mílanó.

Edin Dzeko kom Inter í forystu eftir rúmlega hálftíma leik áður en Sebastién Thill jafnaði metin snemma í síðari hálfleik.

Arturo Vidal kom Inter yfir að nýju skömmu síðar og Stefan de Vrij gulltryggði sigurinn með þriðja markinu á 67. mínútu. Lokatölur því 3:1.

Real Madríd átti þá ekki í nokkrum einustu vandræðum með Shakhtar Donetsk í Úkraínu.

Madrídingar leiddu með einu marki í hálfleik eftir skelfilegt sjálfsmark Sergei Krivtsov.

Í síðari hálfleik opnuðust svo flóðgáttir þegar Vinícius Júnior skoraði tvívegis og Rodrygo og Benzema skoruðu sitt markið hvor.

5:0 reyndust lokatölur.

Sheriff og Real Madríd eru jöfn að stigum í efstu tveimur sætum D-riðils með 6 stig og Inter er svo í þriðja sætinu með 4 stig.

mbl.is