Mótherjar Víkings biðla til stuðningsmanna og gefa miða á leikinn

Ari Sigurpálsson skorar glæsilegt sigurmark sitt í fyrri leik Víkings …
Ari Sigurpálsson skorar glæsilegt sigurmark sitt í fyrri leik Víkings gegn Lech Poznan. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Ríkjandi Póllandsmeistarar Lech Poznan hafa ekki riðið feitum hesti frá fyrstu þremur viðureignum sínum í pólsku úrvalsdeildinni á tímabilinu enda uppskeran aðeins eitt stig. Þá tapaði liðið í síðustu viku, 0:1, fyrir ríkjandi Íslandsmeisturum Víkings í undankeppni Sambandsdeildar UEFA.

Stuðningsmenn eru vægast sagt ósáttir og létu til að mynda leikmenn Lech heyra það að leik loknum í Víkinni síðastliðið fimmtudagskvöld.

Fyrsta stigið í deildinni fékkst í 1:1-jafntefli gegn Zaglebie Lubin um liðna helgi og er Lech í næstneðsta sæti pólsku deildarinnar, því sautjánda.

Líkt og kemur fram í pólska miðlinum Fakt létu stuðningsmenn Lech leikmenn sína heyra það í leikhléi þegar Zaglebie leiddi með einu marki.

Þar kemur auk þess fram að John van den Brom, hollenskur þjálfari Lech, hafi ákveðið að hvíla fjóra byrjunarliðsmenn sína fyrir síðari leikinn gegn Víkingi næstkomandi fimmtudagskvöld.

Í umfjölluninni segir þá að engin ástæða sé til bjartsýni miðað við spilamennsku Lech í leikjunum gegn Zaglebie og Víkingi.

Miðillinn fjallaði nefnilega einnig um tap liðsins fyrir Víkingi, sagði það einfaldlega hörmulegt og birti ýmis miður falleg ummæli frá netverjum um frammistöðuna.

Forsvarsmenn Lech gera sér grein fyrir því að liðið er í krísu um þessar mundir og birtu myndband af Mikael Ishak, sænskum sóknarmanni og fyrirliða liðsins, þar sem hann biðlar til stuðningsmanna um að styðja við bakið á liðinu í síðari leiknum gegn Víkingi og bætir því svo við að Lech muni gefa miða á leikinn.

mbl.is