Árni farinn frá Rodez

Sara Björk Gunnarsdóttir, Ragnar Frank Árnason og Árni Vilhjálmsson.
Sara Björk Gunnarsdóttir, Ragnar Frank Árnason og Árni Vilhjálmsson. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Knattspyrnumaðurinn Árni Vilhjálmsson hefur fengið samningi sínum við franska B-deildarliðið Rodez rift og er því frjálst að semja við annað lið.

Hann er ekki á lista yfir leikmenn Rodez fyrir komandi tímabil á heimasíðu félagsins og á félagaskiptasíðunni Transfermarkt segir ennfremur að hann hafi verið án félags frá því í upphafi júlí, þegar félagaskiptaglugginn í Evrópu opnaði.

Árni samdi við Rodez í janúar síðastliðnum og skrifaði þá undir tveggja og hálfs árs samning.

Hann lék því aðeins í hálft tímabil með liðinu en leitar nú væntanlega að félagsliði á Ítalíu svo honum sé unnt að vera sem næst fjölskyldu sinni.

Árni er í sambúð með Söru Björk Gunnarsdóttur, landsliðsfyrirliða í knattspyrnu, sem fór frá Evrópu- og Frakklandsmeisturum Lyon í sumar og samdi við Ítalíumeistara Juventus.

Saman eiga þau einn son, Ragnar Frank, og vill fjölskyldan því vitanlega vera sem næst hvoru öðru. Rodez er um 400 kílómetra frá Lyon og því var um þónokkuð púsluspil hjá fjölskyldunni að ræða þegar Sara Björk fór aftur af stað með Lyon eftir fæðingarorlof í mars síðastliðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert