Grétar orðaður við eftirsótt starf í Hollandi

Grétar Rafn Steinsson til hægri.
Grétar Rafn Steinsson til hægri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grétar Rafn Steinsson kemur til greina sem næsti yfirmaður íþróttamála hjá hollenska stórliðinu PSV.

Það er hollenski miðillinn Voetbal International sem greinir frá þessu en Grétar Rafn starfar í dag sem tæknilegur ráðgjafi hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Tottenham.

Grétar Rafn, sem er 40 ára, lagði skóna á hilluna árið 2013 og hefur síðan þá starfað hjá bæði Fleetwood Town, Everton og Knattspyrnusambandi Íslands áður en honum bauðst starf hjá Tottenham.

Marcel Brands, sem var yfirmaður knattspyrnumála hjá AZ Alkmaar frá 2005 til 2010, er í dag yfirmaður knattspyrnumála hjá PSV en hann og Grétar þekkjast vel eftir að Grétar lék með AZ Alkmaar frá 2006 til 2008.

Grétar lék með liðum á borð við Young Boys, AZ Alkmaar og Bolton á ferlinum og þá lék hann 46 A-landsleiki fyrir Ísland frá 2002 til ársins 2012.

mbl.is