Hrósaði Heimi í hástert

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Jamaíka.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Jamaíka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leon Bailey, sóknarmaður Aston Villa og jamaíska landsliðsins í knattspyrnu, hrósaði Heimi Hallgrímssyni, þjálfara Jamaíku, í hástert eftir vináttulandsleik liðsins gegn Argentínu í New Jersey í Bandaríkjunum í nótt.

Leiknum lauk með 3:0-sigri Argentínu en þetta var fyrsti leikur Jamaíku undir stjórn Heimis en Eyjamaðurinn tók við þjálfun liðsins í síðustu viku.

Lioenel Messi skoraði tvívegis fyrir Argentínu undir lok leiksins en áður hafði Julian Álvarez komið Argentínu yfir á 15. mínútu.

„Hann er með mjög skýra hugmyndafræði og hann veit upp á hár hvað hann vill fá frá okkur,“ sagði Bailey í samtali við jamaíska miðilinn Sports Down The Middle eftir leikinn í nótt.

„Hann hefur lagt áherslu á það að við horfum til framtíðar og hann krefst þess að allir leikmenn liðsins séu með sitt hlutverk á hreinu. Allt frá aftasta manni til þess fremsta.

Hann er með fallegan persónuleika og hann er fyrst og fremst góð manneskja. Ég held að hann muni reynast okkur einstaklega vel,“ bætti Bailey við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert