Chelsea fór illa með Milan og Haaland skorar og skorar

Erling Haaland kom Manchester City yfir gegn FC Köbenhavn á …
Erling Haaland kom Manchester City yfir gegn FC Köbenhavn á sjöundu mínútu. AFP

Átta leik­ir fóru fram í Meist­ara­deild karla í fót­bolta í kvöld þar sem leik­in var þriðja um­ferð í fjór­um riðlum, E, F, G og H. Tveir þeirra hóf­ust kl. 16.45 en hinir átta klukk­an 19.00. 

Í E-riðli vann Chelsea gríðarlega mikilvægan og sannfærandi sigur á AC Milan í Lundúnum. Wesley Fofana kom Lundúnaliðinu yfir á 24. mínútu er boltinn féll fyrir hann í vítateignum eftir hornspyrnu og hann renndi honum í netið.

Gabonmaðurinn Pierre-Emerick Aubameyang tvöfaldaði svo forystu Chelsea-manna eftir 56. mínútna leik er hann potaði fyrirgjöf Reece James í netið. Aðeins sex mínútum síðar var svo komið að Reece James. Þá fékk enski bakvörðurinn sendingu frá Raheem Sterling og negldi boltanum í þaknetið, 3:0 og Chelsea að ganga frá Milan. Það reyndist svo lokamarkið..

Salzburg vann svo 1:0 sigur á Dinamo Zagreb í hinum leik E-riðilsins, meira má lesa um hann hér.

Chelsea-menn voru frábærir í kvöld.
Chelsea-menn voru frábærir í kvöld. AFP

Í F-riðli vann Real Madrid 2:1 sigur á Shaktar Donetsk í Madrid. Brasilísku kantmennirnir Rodrygo og Vinicius Junior komu heimamönnum í 2:0 áður en Oleksandr Zubkov minnkaði muninn fyrir Shaktar þegar sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Engin mörk voru skoruð í seinni hálfleiknum og lokatölur því 2:1.

Í hinum leik F-riðilsins vann RB Leipzig 3:1 sigur á Celtic í Þýskalandi, meira má lesa um hann hér.

Ísak lék heilan leik gegn Manchester City

Í G-riðli vann Manchester City 5:0 sigur á FC Köbenhavn í Manchester. Norðmaðurinn Erling Haaland kom City-mönnum yfir eftir aðeins sjö mínútna leik með skoti á nærstöngina eftir sendingu þvert fyrir frá Joao Cancelo.

Hann tvöfaldaði svo forystu City-manna á 30. mínútu er hann fylgdi á eftir skoti Sergio Gomez. Gomez var svo aftur á ferðinni níu mínútum síðar er hann skaut í tvo varnarmenn og boltinn fór af Davit Khocholava og í netið. Riyad Mahrez kom svo City í 4:0 úr vítaspyrnu er tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Argentínumaðurinn Julian Álvarez var næstur á skotskónum og fimmfaldaði forystu Manchester-liðsins á 76. mínútu.

Ísak Bergmann Jóhannesson lék allan leikinn á miðjunni hjá Köbenhavn og Hákon Arnar Haraldsson kom inn á sem varamaður á 55. mínútu. Orri Steinn Óskarsson var ekki í leikmannahópnum.

Dortmund fór illa með Sevilla á Spáni í hinum leik G-riðilsins. Raphael Guerreiro, Jude Bellingham og Karim Adeyemi sáu til þess að Dórtmund-liðið færi með þriggja marka forystu til búningsklefa. Youssef En-Neysri minnkaði muninn í 1:3 í byrjun síðari hálfleiksins en Julian Brandt gerði svo endanlega út um leikinn á 75. mínútu þegar hann þrefaldaði forystu þýska liðsins á nýjan leik. Lokatölur 4:1 Dortmund í vil.

Karim Adeyemi og Judfe Bellingham skoruðu sitthvort markið í sterkum …
Karim Adeyemi og Judfe Bellingham skoruðu sitthvort markið í sterkum 4:1 sigri á Sevilla í kvöld. AFP

Í H-riðli gerðu Benfica og París SG 1:1 jafntefli í Portúgal. Lionel Messi kom Parísarliðinu í 1:0 á 22. mínútu með laglegri afgreiðslu eftir sendingu frá Neymar. Danilo Pereira setti svo boltann í eigið net eftir fyrirgjöf Enzo Fernandez og jafnaði metin fyrir Benfica, fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur því 1:1.

Juventus vann 3:1 sigur í hinum leik H-riðilsins á Ítalíu. Adrien Rabiot kom Juventus í 1:0 eftir 25. mínútna leik og svo á 50. mínútu tvöfaldaði Dusan Vlahovic forystu Juve-manna. Din David minnkaði svo muninn fyrir Maccabi á 76. mínútu. Adrien Rabiot tvöfaldaði svo forystu Juve-manna á nýjan leik á 83. mínútu, lokatölur 3:1. 

Yfirlit yfir niðurstöður og staðan í riðlunum:

E-RIÐILL:
Salzburg - Dinamo Zagreb 1:0
Chelsea - AC Milan 3:0
Salzburg 5 stig, Chelsea 4, AC Milan 4, Dinamo 3.

F-RIÐILL:
RB Leipzig - Celtic 3:1
Real Madrid - Shakhtar Donetsk 2:1
Real Madrid 9 stig, Shakhtar 4, RB Leipzig 3, Celtic 1.

G-RIÐILL:
Manchester City - Köbenhavn 5:0
Sevilla - Dortmund 1:4
Manchester City 9 stig, Dortmund 6, Köbenhavn 1, Sevilla 1

H-RIÐILL:
Benfica - París SG 1:1
Juventus - Maccabi Haifa 3:1
París SG 7 stig, Benfica 7, Juventus 3, Maccabi Haifa 0.

Meistaradeildin í beinni opna loka
kl. 20:55 Textalýsing Nú er búið að flauta leikina af á öllum völlum. Lokatölur: Chelsea 3:0 AC Milan, Real Madrid 2:1 Shaktar Donetsk, Manchester City 5:0 FC Köbenhavn, Sevilla 1:4 Dortmund, Benfica 1:1 París SG, Juventus 3:1 Maccabi Haifa.
mbl.is