Hörður og félagar aftur á sigurbraut

Hörður Björgvin Magnússon í leik með íslenska landsliðinu.
Hörður Björgvin Magnússon í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/KSÍ

Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsmaður í knattspyrnu, var á sínum stað í hjarta varnar Panathinaikos þegar liðið vann Levadiakos með minnsta mun, 1:0, á útivelli í grísku úrvalsdeildinni í dag.

Hörður Björgvin lék allan leikinn og hjálpaði Panathinaikos að halda hreinu.

Eftir að Panathinaikos náði forystunni köstuðu stuðningsmenn Levadiakos reyksprengjum inn á völlinn. Lögreglan brást við með því að sprauta táragasi í átt að stúkunni, þar sem nokkrir stuðningsmenn misstu meðvitund og aðrir hlupu inn á völlinn til að flýja táragasið.

Eftir hálftíma töf hélt leikurinn svo áfram.

Liðið hafði gert tvö óvænt 1:1-jafntefli í röð, gegn botnliði Ionikos og OFI Krít, og var sigurinn því kærkominn.

Panathinaikos er á toppi deildarinnar með 42 stig, sjö stigum fyrir ofan AEK frá Aþenu sem á þó leik til góða sem er nýhafinn.

Toppliðið hefur ekki tapað deildarleik á tímabilinu til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert