Fyrsta stig Norðmanna kom í Tbilisi

Norðmaðurinn Marcus Holmgren Pedersen og Georgíumaðurinn snjalli Khvicha Kvaratskhelia í …
Norðmaðurinn Marcus Holmgren Pedersen og Georgíumaðurinn snjalli Khvicha Kvaratskhelia í kapphlaupi um boltann í Tbilisi í dag. AFP/Vano Shlamov

Norðmenn eru aðeins með eitt stig eftir tvo fyrstu leiki sína í undankeppni Evrópumóts karla í fótbolta en þeir gerðu jafntefli, 1:1, við Georgíumenn í Tbilisi í dag.

Norska liðið byrjaði vel því Alexander Sörloth skoraði strax á 15. mínútu eftir sendingu frá Fredrik Aursnes.

Georgíumenn jöfnuðu hins vegar metin á 61. mínútu en þar var að verki Georges Mikautadze og þar við sat þrátt fyrir talsverðan sóknarþunga Norðmanna á lokakafla leiksins.

Mikil dramatík var á lokasekúndunum þegar Norðmenn töldu sig eiga að fá vítaspyrnu og dómarinn fór og skoðaði atvikið af sjónvarpsskjá en niðurstaða hans var að ekki væri um vítaspyrnu að ræða.

Norðmenn töpuðu 3:0 fyrir Spánverjum í fyrsta leik sínum í riðlinum en Skotland, sem vann Kýpur 3:0, tekur á móti Spáni í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert