Fögnuðu ekki titlinum

Dani Carvajal sat fyrir svörum á fréttamannafundi í gær.
Dani Carvajal sat fyrir svörum á fréttamannafundi í gær. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Real Madríd varð spænskur meistari í knattspyrnu karla um helgina. Þrátt fyrir það segir bakvörðurinn Dani Carvajal að Madrídingar hafi ekki fagnað titilinum.

Á liðið fyrir höndum leik gegn Bayern München í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Fyrri leiknum í München lauk með jafntefli, 2:2, og því er allt galopið fyrir síðari leikinn í Madríd í kvöld.

„Að fagna ekki var það besta í stöðunni. Við eigum mikilvægan leik fyrir höndum og við getum fagnað um næstu helgi. Þess vegna tókum við ákvörðun um að gera það ekki um þá síðustu,“ sagði Carvajal á fréttamannafundi í gær.

Dreymir um 15. titilinn

Real Madríd hefur unnið Meistaradeildina oftast allra liða, 14 sinnum, og freistar þess að bæta 15. titlinum í safnið.

„Við höfum átt frábært ár. Við erum mjög spenntir fyrir Meistaradeildinni. Við erum tveimur leikjum frá því að lyfta bikarnum aftur.

Við vitum af því í búningsklefanum. Fólk á götunni hvetur okkur til dáða svo við getum látið okkur dreyma um 15. titilinn,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert