Fyrsti titillinn í 110 ár

Leikmenn Royale Union fagna sigurmarki Koki Machida í leiknum í …
Leikmenn Royale Union fagna sigurmarki Koki Machida í leiknum í dag. AFP/Tom Goyvaerts

Royale Union varð í dag belgískur bikarmeistari í knattspyrnu með því að sigra Royal Antwerp í úrslitaleiknum í Brussel, 1:0.

Koki Machida skoraði sigurmarkið undir lok fyrri hálfleiks.

Sigurinn er sögulegur því þetta er fyrsti bikarmeistaratitill Royale Union í 110 ár, eða frá árinu 1914, þegar félagið varð bikarmeistari annað árið í röð.

Þá hefur Royale Union ellefu sinnum orðið belgískur meistari en hefur ekki unnið þann titil í 89 ár, eða frá árinu 1935.

Félagið sneri á ný í efstu deild eftir langa fjarveru vorið 2021 og hefur í kjölfarið á því skipað sér í fremstu röð í Belgíu.

Þrír Íslendingar hafa spilað með félaginu. Marteinn Geirsson og Stefán Halldórsson léku með því á árunum 1976 til 1979 og Aron Sigurðarson á árunum 2019 til 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert