Aníta varð heimsmeistari

Aníta Hinriksdóttir á efsta þrepi á verðalunapallinum á HM í ...
Aníta Hinriksdóttir á efsta þrepi á verðalunapallinum á HM í dag meðan þjóðsöngurinn var leikinn. LjósmyndSkjáskot

Aníta Hinriksdóttir úr ÍR varð heimsmeistari í 800 m hlaupi kvenna á heimsmeistaramóti 17 ára og yngri í Donetsk fyrir stundu. Hún kom langfyrst í mark á 2.01,13 mínútum og bætti mótsmetið um rúma hálfa sekúndu.

Aníta tók forystu í hlaupinu eftir 400 m og jók smátt og smátt við forskot sitt. Eftir 500  metra var hún komin með talsvert forskot á næstu keppendur og hélt sínu striki alla leið í mark.

Fyrstu 400 metrarna hljóp Aníta á 58,25 sekúndum og eftir 600 metra var tíminn 1,26 mínútur. Þá voru næstu andstæðingar í 30 til 40 metra fjarlægð.

Aníta er fyrst íslenskra frjálsíþróttamanna til þess að vinna gullverðlaun á heimsmeistaramóti. Næst því hafði Vala Flosadóttir komist er hún varð önnur í stangarstökki á HM fullorðinna í Maebashi í Japan 1999.

Dureti Edao frá Eþíópíu varð önnur í mark í hlaupinu á 2.03,25 og bandaríska stúlkan Raevyn Rogers varð þriðja á 2.03,32.

Íslandsmet Anítu í 800 m hlaupi er 2.00,49.

Viðtal við þjálfara Anítu, Gunnar Pál Jóakimsson.

Úrslit hlaupsins.

Aníta Hinriksdóttir eftir að hún kom í mark heimsmeistari í ...
Aníta Hinriksdóttir eftir að hún kom í mark heimsmeistari í 800 m hlaup kvenna, 17 ára og yngri. Skjáskot
mbl.is

Bloggað um fréttina