Þriðja sveitin í úrslit á EM

Keppni hjá blönduðu liði stendur nú yfir á EM.
Keppni hjá blönduðu liði stendur nú yfir á EM. mbl.is/Golli

Blönduð sveit Íslands tryggði sér sæti í úrslitum á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum en undankeppninni var að ljúka í íþróttahöllinni í Maribor í Slóveníu. Íslenska sveitin hafnaði í fimm sæti af níu en sex þær efstu keppa til úrslita á laugardaginn. Danir, Svíar, Norðmenn, Bretar og Ítalir verða einnig með sveitir í úrslitunum.

Þetta er aldeilis glæsilegur árangur hjá íslensku hópfimleikafólki. Framundan er keppni í kvennaflokki þar sem íslenska landsliðið stefnir á að vera í allra fremstu röð að vanda. Keppni í kvennaflokki hefst klukkan 16.45.

Svíar voru efstir í undankeppni blandaðra eldri liða í dag með 60.000 stig.  Danir höfnuðu í öðru sæti með 58.550. Noregur varð í þriðja sæti með 54.416. Íslenska sveitin önglaði saman 53.416 stigum.

Fylgst var með keppninni í beinni textalýsingu á mbl.is.

Kl. 15.42 Þar með er það staðfest að íslenska liðið er komið í úrslitin sem fram fara á föstudaginn. Sveitin hafnaði í fimmta sæti í undankeppninni sem var að ljúka. 

Kl. 15.25 Íslenska liði fékk 15.950 fyrir dýnustökkin. Hægt er að slá því föstu að liðið hefur unnið sér sæti í úrslitum á laugardaginn. Ljóst er að minnsta kosti þrjár sveitir verða fyrir neðan íslenska liðið hvernig sem allt fer, Slóvenar, Frakkar og Tékkar.

Kl. 15.16 Þar með hefur íslenska sveitin lokið við síðustu grein, dýnustökk. Mikill kraftur í keppendunum sex en helst hnökra að sjá í lendingum í annarri og þriðju umferð. Mikið útgeislun frá keppendum. Ég held að það hljóti bara að vera að sæti í úrslitum sé í höfn. Nú tekur við bið eftir að hinar sveitirnar fimm sem eftir eiga að keppa ljúka sínum æfingum.

Kl. 15.10 Norðmenn eru efstir eftir tvær umferðir með 37.716. Íslendingar í öðru með 37.466. Svíar eru næstir þar á eftir með 37.300 og Danir fjórðu með 36.200. Útlitið er gott fyrir íslensku sveitina.

Kl. 15.08 Reynt var við víkingklapp meðan beðið var eftir þriðju umferðinni. Óhætt er að segja að ekki hafi tekist vel til, stutt og með snubbóttum endi. Slóvenar eru ekki alveg með þetta. Það vantar okkar allra besta Aron Einar Gunnarsson á svæðið til að leiðbeina Slóvenum í þessu efnum.

Kl. 15.04 Einkunnir Norðmanna og Svía í annarri umferð liggja ekki fyrir en nokkuð sennilega er að Ísland verði í þriðja sæti samanlagt eftir tvær umferðir og standi þar af leiðandi vel að vígi í baráttunni um að ná einu af sex efstu sætunum. Danir eiga dansinn eftir í lokaumferðinni en danska sveitin hefur sýnt afbragðs tilburði í báðum stökkgreinunum.

Kl. 14.51 Þá liggur niðurstaðan fyrir hjá dómurunum eftir dansinn hjá íslensku sveitinni. Hún fékk 20.566. Maður hér nærri mér fullyrðir þar með að sveitin sé komin með anna fótinn í úrslit. Bíðum nú aðeins við, en vissulega væri það frábær niðurstaða að ná þriðju sveitinni í úrslit.

Kl. 14.46 Bretar voru að ljúka trampólínstökkum og fengu lægri einkunn en Íslendingar, 16.250.

Kl. 14.45 Dansinn að baki hjá íslensku sveitina. Ekki var annað sjá en nokkuð vel hafi tekist til. Keppendurnir tíu liðu um gólfið og uppskáru verðskuldað klapp og húrrahróp frá áhorfendum, en margir Íslendingar eru á meðal áhorfenda.

Kl. 14.39 Norðmenn fengu sömu einkunn og Íslendingar fyrir trampólínstökkin, 16.900. Íslenska og norska sveitin eru jafnar í fimmta sæti. Spennandi keppni framundan.

Kl. 14.36 Fyrstu umferð er lokið og aðeins beðið eftir hvað dómarar gefa Norðmönnum fyrir trampólínstökk sín. Útlit er fyrir að íslenska sveitin verði í sjötta sæti af níu eftir eftir fyrstu umferðina. Samanburður er hinsvegar ekki alveg marktækur ennþá.

Kl. 14.33 Ítalia hefur einnig lokið við sín trampólínstökk og fékk 15.900.

Kl. 14.18 Íslenska liðið fékk 16.900 fyrir stökk sín í fyrstu umferðinni. Vasklega gert.

Kl. 14.11 Þar með hefur íslenska sveitin lokið keppni í trampólínstökkum. Fyrsta og þriðja umferðin gekk einstaklega vel með erfiðum og tilkomu miklum stökkum og skrúfum. Hnökrar voru í lendingum hjá nokkrum í annarri umferð. Næst er að bíða eftir einkunninni.

Kl.14.05 Þá er keppnin komin á fulla ferð. Feykilega góð stemning í salnum að vanda.

Kl. 13.59 Keppnin er alveg að hefjast. Frakkar ríða á vaðið. Þar sem ég sit í aðstöðu blaðamanna er hávaðinn gríðarlegur og vart hægt að tala við manninn við hliðina á sér. En nettengingin er í lagi og það skiptir öllu mála. 

Kl. 13.57 Íslenska sveitin verður þriðja í röðinni í hverri umferð. Hún byrjar á trampólínstökkum, fer síðan yfir í dansinn í annarri umferð og endar með dýnustökkum.

Kl. 13.55 Sveitir frá níu þjóðum reyna með sér. Af þeim komast sex stigahæstu sveitirnar áfram í úrslit sem fram fara á föstudaginn. 

Kl. 13.52 Góðan dag. Mbl.is heilsar úr Lukna-íþróttahöllinni í Maribor þar sem senn hefst undankeppni eldri blandaðra liða. Keppendur eru þó ekkert mjög gamlir, í kringum tvítugsaldur. Yngra blandaða lið Íslands komst í úrslit í gær eins og unglingalið stúlkna. Í dag keppir kvennalandsliðið auk blandaða liðsins sem á sviðið til að byrja með. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert