Schippers tók gullið í 200 metra hlaupi

Dafne Schippers fagnar í kvöld.
Dafne Schippers fagnar í kvöld. AFP

Dafne Schippers frá Hollandi varði heimsmeistaratitil sinn í 200 metra hlaupi eftir að hún kom fyrst í mark í úrslitahlaupinu í London í kvöld. Hún hljóp á 22,05 sekúndum sem er hennar besti tími á árinu. Marie-Josée Ta Lou frá Fílabeinsströndinni varð önnur á 22,08 sekúndum og Shaunae Millder-Uibo frá Bahamaeyjum varð þriðja á 22,15 sekúndum. 

Brittney Reese frá Bandaríkjunum vann sitt fjórða gull á heimsmeistaramóti í langstökki er hún stökk 7,02 metra. Darya Klishina frá Rússlandi varð önnur með stökk upp á nákvæmlega sjö metra og Tianna Bartoletta frá Bandaríkjunum tók brons með stökk upp á 6,97 metra. 

Pawel Fajdek frá Póllandi varði heimsmeistaratitil sinn í sleggjukasti karla er hann kastaði sleggjunni 79,81 metra. Valeriy Pronkin frá Rússlandi varð annar með kast upp á 78,16 metra og Pólverjinn Wojciech Nowicki tók bronsið með 78,03 metra kasti. 

Emma Coburn frá Bandaríkjunum vann sitt fyrsta gull á heimsmeistaramóti er hún kom fyrst í mark í 3000 metra hindrunarhlaupi. Hún hljóp á 9:02,58 mínútum sem er nýtt heimsmeistaramótsmet. Landa hennar, Courtney Frerichs varð önnur á 9:03,77 mínútum og Hyvin Kiyeng Jepkemoi frá Kenía varð þriðja á 9:04,03 mínútum. 

Brittney Reese er heimsmeistari í langstökki.
Brittney Reese er heimsmeistari í langstökki. AFP
mbl.is