Margrét og Kristófer Darri valin best

Margrét Jóhannsdóttir.
Margrét Jóhannsdóttir. mbl.is/Golli

Stjórn Badmintonsambands Íslands hefur valið Kristófer Darra Finnsson badmintonmann og Margréti Jóhannsdóttur badmintonkonu ársins 2017. 

Kristófer Darri er Íslandsmeistari í tvíliðaleik en hann náði þeim árangri ásamt meðspilara sínum, Davíð Bjarna Björnssyni, í fyrsta sinn í vor. Hann komst einnig í úrslit í einliðaleik. Kristófer Darri er í A-landsliði Íslands í badminton og  Afrekshópi Badminton-sambandsins. Hann var í unglingalandsliðum Íslands áður og spilaði fyrst með A-landsliðinu árið 2014, þá aðeins 17 ára gamall.

Kristófer æfir og spilar með TBR. Hann varð Reykjavíkurmeistari í einliðaleik á árinu og í tvíliðaleik en hann og meðspilari hans hafa unnið tvíliðaleik karla á öllum mótum á mótaröð BSÍ á árinu. Hann er efstur á styrkleikalista Badmintonsambandsins í einliðaleik og tvíliðaleik, ásamt Davíð Bjarna. Kristófer Darri hefur tekið þátt í fimm alþjóðlegum mótum á árinu og vinnur að því að vinna sig upp heimslistann. Hann er í 253. sæti listans í tvíliðaleik með einungis fimm mót en listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanna á árinu.

Margrét komst í hóp 18 annarra Íslandsmeistara í badminton, sem hafa orðið þrefaldir Íslandsmeistarar, þegar hún varð Íslandsmeistari í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik á árinu. Margrét vann sinn annan Íslandsmeistaratitill í einliðaleik þegar hún sigraði Sigríði Árnadóttir TBR 21:7, 21:5. Þær unnu síðan saman tvíliðaleik kvenna og hömpuðu, með því, báðar sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í tvíliðaleik. Margrét vann síðan sinn þriðja Íslandsmeistara-titil í röð í tvenndarleik með Daníel Thomsen TBR. Margrét hefur unnið öll mót á árinu, sem hún hefur tekið þátt í innan mótaraðar BSÍ.

Margrét var færð í meistaraflokk aðeins 16 ára gömul en hún á að baki fjöldann allan af Íslandsmeistaratitlum í unglingaflokkum sem og í A- og B-flokki. Hún hefur keppt með landsliðinu fyrir Íslands hönd um árabil og spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2013, þá 18 ára gömul. Margrét á átta A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd. Áður spilaði hún með U17 og U19 unglingalandsliðum Íslands. Margrét er í 312. sæti heimslistans þrátt fyrir að vera einungis með fjögur alþjóðleg mót sem hún hefur keppt á en listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanna.

Kristófer Darri Finnsson og Margrét Jóhannsdóttir.
Kristófer Darri Finnsson og Margrét Jóhannsdóttir. Ljósmynd/Badmintonsamband Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert