SR semur við tólf nýja leikmenn

Aron Knútsson er genginn í raðir SR á nýjan leik.
Aron Knútsson er genginn í raðir SR á nýjan leik. Ljósmynd/Stefán Örn

Skautafélag Reykjavíkur fékk í dag góðan liðstyrk fyrir komandi tímabil í íshokkíinu. Tíu leikmenn sömdu við karlalið félagsins og tveir sömdu við sameinað kvennalið SR og Bjarnarins sem ber nafnið Reykjavík. 

Daniel Kolar tók við þjálfun SR-liðsins fyrir tímabilið og nú hafa bæst við leikmennirnir Alexey Yakolev, Andri Freyr Sverrisson, Aron Knútsson, Egill Þormóðsson, Jón Andri Óskarsson, Konstantin Sharapov, Markús Maack, Nicolas Jouanne, Robbie Sigurðsson og Styrmir Steinn Maack. 

Í kvennaliðið bættust við þær Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Sigrún Agatha Árnadóttir. Þrjú lið verða í úrvalsdeild karla í vetur; SA, SR og Björninn, en Esja er hætt. Í kvennadeildinni verða SA og RVK. Lýsisbikarinn fer svo fram í fyrsta skipti en það er nýtt mót á vegum Íshokkísambandsins.

mbl.is