Patriots í úrslitaleikinn þriðja árið í röð

Tom Brady fagnar með New England Patriots í nótt.
Tom Brady fagnar með New England Patriots í nótt. AFP

New England Patriots tryggði sér í nótt sæti í úrslitaleik NFL-deildarinnar, Ofurskálarleikinn, eða Super Bowl, eftir sigur á Kansas City Chiefs í framlengingu í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar, 37:31.

Patroits var 14:0 yfir í hálfleik og það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem Kansas vaknaði til lífsins og komst yfir. Í leikhlutanum voru alls skoruð 38 stig, sem er met, þar sem það var lið New England sem tryggði framlengingu, 31:31.

Það var að lokum Tom Brady, leikstjórnandi New England Patriots, sem lagði upp sigur liðsins í framlengingu 37:31. Brady mun nú freista þess að vinna sinn sjötta sigur í Ofurskálarleiknum 3. febrúar.

Þetta er þriðja árið í röð sem Patriots spilar um úrslitaleikinn og í níunda sinn undir stjórn þjálfarans Bill Belichick. Liðið mætir Los Angeles Rams í úrslitaleiknum, en Rams vann New Orleans Saints í framlengdum úrslitaleik Þjóðardeildar NFL og vann sér þar með sæti í Ofurskálarleiknum.

mbl.is