„Náðum ekki að spila okkar leik“

Emil Gunnarsson, þjálfari HK.
Emil Gunnarsson, þjálfari HK. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Emil Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs HK í blaki, mætti með sínar konur í KA-heimilið í dag til að spila úrslitaleikinn um Íslandsmeistaratitilinn í blaki.

HK hafði unnið tvo síðustu leiki og jafnað einvígið í 2:2. HK var ekki upp á sitt besta í dag og vann KA nokkuð sannfærandi 3:0-sigur. Emil þurfti því að sjá á eftir Íslandsmeistaratitlinum til KA í þetta skiptið.

Þetta eru grátleg úrslit fyrir ykkur.

„Við höfðum væntingar um annað og vorum búin að undirbúa okkur vel. Við mættum bara ofjörlum okkar í þessum leik, það er bara mjög einfalt. KA var að spila frábærlega. Spennustigið var mjög hátt í leiknum og það var það báðum megin við netið til að byrja með. Eftir að KA náði að vinna fyrstu hrinuna þá unnu þær bug á sínu en okkur tókst, því miður, aldrei að komast út úr þessu háa spennustigi og náðum ekki að spila okkar leik.“

Það var mikil stemning á þessum leik, húsið fullt og mikil læti. Þið voruð með góða stuðningsmannasveit. Hvernig fannst þér?

„Mér fannst umgjörðin í dag frábær hjá KA og virkilega gaman að taka þátt í þessu. Vissulega hefðum við viljað önnur úrslit. Við höfum verið með frábæra stuðningsmenn í allan vetur sem hafa ýtt á stelpurnar og okkur öll sömul. Þau hafa fylgt okkur hvert sem við höfum farið“ sagði hinn viðkunnalegi Emil að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert