Söguleg stund hjá KA-konum

Íslandsmeistarar KA.
Íslandsmeistarar KA. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

KA varð í gær Íslandsmeistari í blaki kvenna í fyrsta skipti í sögu félagsins. KA mætti HK í hreinum úrslitaleik í stappfullu KA-heimilinu en hvort lið hafði unnið tvo leiki í úrslitaeinvíginu.

Eins og í öllum leikjum liðanna í vetur var hart barist. Öflug trommusveit var mætt úr Kópavogi og fengu liðin svakalegan stuðning í brjáluðum hávaða og stemmningu. KA var miklu sterkara liðið í leiknum og vann öruggan 3:0-sigur. Hrinurnar fóru 25:18, 25:17 og 25:19.

Norðankonur urðu einnig deildar- og bikarmeistarar í vetur og eru þær því þrefaldir meistarar tímabilsins.

KA var með undirtökin í leiknum nánast allan tímann. Allar þrjár hrinurnar byrjaði KA með látum en HK náði að jafna í tveimur fyrstu hrinunum áður en KA seig aftur fram úr. Það sem gerði gæfumuninn var fullmörg einstaklingsmistök hjá HK en auk þess var mikill munur á móttöku liðanna. KA var að taka mjög vel á móti uppgjöfum HK og gat því sótt úr öllum stöðum. Birna Baldursdóttir naut góðs af því en hún fékk marga bolta í miðjusókn KA og skilaði þeim flestum í gólfið. HK var í nokkrum vandræðum með sína móttöku og varð því sóknarleikurinn ekki eins beittur fyrir vikið.

KA sigldi nokkuð þægilega í gegnum lokahrinuna eftir að hafa komist í 7:1. KA vann hana 25:19 og ætlaði allt um koll að keyra á áhorfendapöllunum þegar KA loks skoraði sigurstigið. Það fór vel á því að Birna ætti lokaskellinn en hún er búin að baksa með KA í áratugi og yfirleitt í neðri hluta deildarinnar.

Sjá alla greinina á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert