Meiddist rétt fyrir fyrsta kast ársins

Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir átti að keppa á sínu fyrsta móti á tímabilinu í kvöld en varð fyrir meiðslum í síðasta upphitunarkastinu og þurfti að draga sig úr keppni.

Ásdís sagði við mbl.is í kvöld að hún hafi fengið sting í innanvert lærið, uppi við nára, og því þurft frá að hverfa. Í vetur hefur Ásdís tjáð sig á samfélagsmiðlum um það hversu gott það væri að hafa náð að æfa meiðslalaus, en síðasta ár var henni erfitt þar sem ekki var ljóst hvort hún gæti haldið áfram keppni vegna meiðsla. Hún vonar þó að þetta bakslag sé ekki alvarlegt.

„Ég þarf að komast í sónar eða sneiðmynd til að það sé hægt að sjá hvað gerðist í vöðvanum. Svo sé ég betur á næstu dögum hvernig þetta þróast. Ég hef ekki slæma tilfinningu fyrir þessu og vonandi hef ég rétt fyrir mér,“ sagði Ásdís við mbl.is.

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason keppti einnig á mótinu í dag og kastaði lengst 57,51 metra og hafnaði í fimmta sæti af fimm keppendum. Sigurvegarinn kastaði 62,94 metra, en Guðni á lengst 63,53 metra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert