Mike Powell tókst á loft

Mike Powell á HM 1991.
Mike Powell á HM 1991. Ljósmynd/Reuters

Víða um heim horfði íþróttaáhugafólk vantrúað á imbakassann föstudagskvöldið 30. ágúst árið 1991 en þá náði heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum hámarki í Tókýó.

Hápunktur mótsins var keppni í langstökki karla þar sem 23 ára gamalt heimsmet Bobs Beamons féll. Metið sem margir héldu að yrði aldrei slegið og var það elsta í frjálsum íþróttum á þessum tíma.

Þeir kumpánar frá Bandaríkjunum, Carl Lewis og Mike Powell, víluðu hins vegar ekki fyrir sér að gera atlögu að metinu. Úr varð hreint magnað einvígi á milli þeirra, sem snérist ekki bara um heimsmeistaratitil, heldur einnig hvort afrek Beamons myndi geta staðið slíkt einvígi af sér.

Ólíkur ferill

Þeir Lewis og Powell höfðu átt ólíkan feril í íþróttinni. Carl Lewis hafði verið stórstjarna á heimsvísu allar götur síðan 1984 þegar hann sló í gegn á Ólympíuleikunum í Los Angeles. Hann var ekki einungis besti langstökkvari heims heldur einnig fljótasti spretthlauparinn, þó Kanadamaðurinn Ben Johnson hefði truflað hann um tíma með öllum tiltækum meðulum. Mike Powell hafði hins vegar smám saman þokað sér nær Lewis í langstökkinu án þess þó að slá honum við. Þar til á HM í Tókýó hafði Lewis ekki tapað langstökkskeppni í áratug og unnið 63 slíkar keppnir í röð.

Stökk 4 cm lengra en Lewis

Þegar á hólminn var komið voru þeir báðir tilbúnir í slaginn. Carl Lewis hafði forystuna framan af og náði að kreista fram betri stökkseríu en sést hafði á stórmóti og verður seint leikin eftir. Bob Beamon stökk 8,90 metra þegar hann setti heimsmet á Ólympíuleikunum í Mexíkó árið 1968. Lewis tókst nokkrum sinnum að daðra við metið. Hann stökk fjórum sinnum yfir 8,80 m og stökk raunar 8,91 m í þriðja síðasta stökki sínu. Meðvindur var hins vegar yfir leyfilegum mörkum í því stökki og því var ekki um gilt heimsmet að ræða. Þrátt fyrir það töldu líklega allir sem á horfðu að þetta risastökk myndi duga til sigurs í keppninni.

Annað kom hins vegar á daginn þegar Mike Powell tókst á loft í næstsíðasta stökki sínu og flaug 8,95 metra. Meðvindur var rétt undir leyfilegum mörkum og heimsmetið var loks fallið og Lewis hafði auk þess verið ýtt af stallinum. Lewis stökk 8,84 metra í sinni síðustu tilraun og spennan var því gríðarleg allt til loka langstökkskeppninnar.

Mike Powell tekst á loft.
Mike Powell tekst á loft. Ljósmynd/Reuters

Morgunblaðið fjallaði að sjálfsögðu ítarlega um þennan viðburð morguninn eftir og í umfjöllun blaðsins sagði meðal annars: „En langstökkskeppnin skyggði þó vitaskuld á allt annað. Hún var stórkostleg og æsispennandi. Aldrei hafa tveir langstökkvarar náð jafn frábærum árangri á sama mótinu.“

Fékk silfrið á Ól 1988

Síðar sagði Powell frá því í viðtölum að Carl Lewis hefði einfaldlega verið það sterkur á umræddum tíma að Powell setti dæmið þannig upp að hann yrði að slá heimsmetið til þess að eiga möguleika á því að vinna Lewis. Það kom á daginn. Í aðdraganda heimsmeistaramótsins í Tókýó var Powell farinn að narta í hælana á Lewis ef svo má segja.

„Ég fór á HM 1991 í þeim erindagjörðum. Þegar samstarf okkar Randy Huntington þjálfara hófst árið 1987 sagði hann við mig: „Við gerum fjögurra ára áætlun með það að markmiði að slá heimsmetið. Ef þú ert skynsamur, heill heilsu og hlustar á mig þá muntu ná þessu markmiði,“ rifjar Powell upp.

Stór orð hjá Huntington en hann hafði greinilega lög að mæla. Powell dró smám saman á Lewis í langstökkinu en Lewis hafði einnig öðrum hnöppum að hneppa á hlaupabrautinni. Þó svo að möguleikinn á því að vinna Carl Lewis væri orðinn raunhæfur í aðdraganda HM 1991 þá var heimsmetið lífseiga þó enn býsna fjarlægt.

„Árið 1988 vann ég til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum. Ég var farinn að brúa bilið á milli okkar Carls. Þegar ég byrjaði að keppa á móti honum var hann 0,6 metrum á undan mér. Síðar munaði 0,3 og loks 15 sentimetrum. Á bandaríska meistaramótinu 1991 vann hann mig með 2 sentimetrum með sínu síðasta stökki. Þá hugsaði ég með mér: „Okei, ég er búinn að ná honum. Næst mun ég fara fram úr honum,“ sagði Powell en bendir á að Lewis hafi mætt í toppformi til leiks í Tókýó.

Mike Powell fyrir miðju með gullið um hálsinn. Carl Lewis …
Mike Powell fyrir miðju með gullið um hálsinn. Carl Lewis er til hægri og til vinstri er Larry Myricks landi þeirra sem fékk bronsið. Ljósmynd/AP

Þurfti að setja heimsmet

„Þegar að heimsmeistaramótinu kom þá hafði ég átt nokkur mjög góð stökk um sumarið en þá sló Carl heimsmetið í 100 metra hlaupi. Þá hugsaði ég: „Ok, þar sem hraðinn er einn stærsti áhrifavaldurinn í langstökkinu þá verður hann tilbúinn til þess að stökkva langt. Ef ég ætla mér að vinna þá er eins gott að ég verði tilbúinn til þess að slá heimsmetið. Ég einbeitti mér því að þeirri hugsun að til þess að vinna heimsmeistaratitilinn yrði ég að bæta heimsmetið,“ sagði Mike Powell í viðtali við netmiðilinn Track and Field árið 2008.

Elsta heimsmetið í frjálsum

Heimsmet Mike Powells lifir góðu lífi enn þann dag í dag. Það sýnir hversu stórt afrek hann vann og ekki síður hversu mikið afrek það var hjá Bob Beamon að stökkva 8,90 m árið 1968 í ljósi þeirra vitneskju sem menn hafa aflað sér um íþróttaþjálfun síðan þá.

28 ár er liðin frá því að Powell setti metið og satt best að segja er ólíklegt að það falli á næstunni. Rétt eins og með met Beamons þegar kom að HM 1991 þá er met Powells það heimsmet sem lengst hefur staðið í frjálsum í dag.

Mike Powell fagnar ógurlega eftir að hafa séð niðurstöðuna á …
Mike Powell fagnar ógurlega eftir að hafa séð niðurstöðuna á skiltinu. Ljósmynd/AFP

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. júní 2012. 

mbl.is