Enn eitt Íslandsmetið og Anton næstbestur í undanúrslit

Anton Sveinn McKee hefur verið afar öflugur á EM í …
Anton Sveinn McKee hefur verið afar öflugur á EM í Glasgow. Ljósmynd/SSÍ

Anton Sveinn McKee setti sitt sjötta Íslandsmet á þremur dögum rétt í þessu og er kominn í undanúrslitin í 100 metra bringusundi á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Glasgow.

Anton synti vegalengdina á 57,21 sekúndu og varð annar í fjórða riðli af fimm, rétt á eftir Evrópumeistaranum Arno Kamminga frá Hollandi sem synti á 56,71 sekúndu. Enginn í síðasta riðlinum náði betri tíma en þeir og Anton stóð því uppi með næstbesta tímann í undanrásunum í greininni.

Fyrra Íslandsmet Antons sem hann setti á HM í Hangzhou í desember 2018 var 57,57 sekúndur. Hann hefur stungið sér sex sinnum til sunds á EM og sett Íslandsmet í öll skiptin en hann varð fjórði í 200 m bringusundi í gær og sjöundi í 50 m bringusundi á miðvikudaginn.

Undanúrslitin fara fram klukkan 17.15 í dag en úrslitasundið er hins vegar síðdegis á morgun, laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert