Sú besta frá Rússlandi er hætt

Maria Sharapova með einn af stóru bikurunum sem hún vann …
Maria Sharapova með einn af stóru bikurunum sem hún vann á ferlinum. AFP

Maria Sharapova frá Rússlandi, sem sló í gegn á táningsaldri, er hætt keppni í tennis, 32 ára gömul, í kjölfar þrálátra meiðsla.

Sharapova tilkynnti þetta í dag en hún hefur verið í vandræðum vegna axlarmeiðsla  og hefur undanfarna tólf mánuði aðeins unnið þrjá leiki. Hún var m.a. slegin út í fyrstu umferð á Opna ástralska mótinu fyrir skömmu og var dottin niður í 373. sæti á heimslistanum.

Sharapova, sem hefur verið búsett í Bandaríkjunum frá sjö ára aldri, vann Wimbledon-mótið þegar hún var aðeins 17 ára gömul og var um skeið efst á heimslistanum en þangað komst hún átján ára árið 2005, fyrst rússneskra kvenna.

Hún vann fimm stórmót, Opna franska tvisvar, Opna ástralska og Opna bandaríska, ásamt Wimbledon, og samtals 36 stóra titla. Sharapova féll á lyfjaprófi árið 2016, þar sem fram kom að hún hafði notað lyfið meldonium, og fékk tveggja ára keppnisbann. Það var síðar stytt í fimmtán mánuði þar sem Alþjóða íþróttadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið um alvarlegt brot að ræða, og ekki af vilja gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert